Abbalabbaganga 2008 Hólaskjól - Álftavatnakrókur - Strútsskáli - Álftavatn
Í tjaldbúðum við Strútsskála dró Björgvin fram koníakspela. Valdimar fannst biðin löng eftir sopanum og bað hann að hætta að fulhnúa pelann svona, annars gufaði allt koníakið upp. Menn "ráku upp stór eyru", enginn hlustandi kannaðist við orðið að fulhnúa nema Ella, enda gjaldkeri Sögufélags Árnesinga. Hannes hafði heyrt orðið en vissi ekki hvað það merkti og var þó félagi. Þessar umræður allar minntu Björgvin á grein í Vísi eftir Steinólf Lárusson frá Fagradal um Trjónukrabbann en hann (trjónukrabbinn, við vissar aðstæður) gefur frá sér sladdandi hljóð líkt og heyrðist síðla nætur í baðstofum þegar griðkonur voru gnúðar til frigða.
Eftir þetta varð til:
Strútsstígur var stiginn jafnt og þétt.
Stefnunni þar haldið nokkuð rétt.
Þar griðkonum var gnúið,
þeim græskulaust fulhnúið
svo greina mátti sladdandi hljóð nett.
EHH
Meðan allflestir sátu í makindum heima í tjaldbúðum fór Hannes í könnunarleiðangur upp um allar brúnir. Menn voru ekki á eitt sáttir um tilgang ferðarinnar en þar hitti hann fyrir unga snót á stuttbuxum og átti við hana mjög intellektúal spjall og jafnvel var ákveðið stefnumót í framhaldi af því, í Kúlúsúkk.
Hannes fór um hamrabelt´og kletta.
Hugð´ann af bolta leita frétta.
Stóð þar upp við stein,
stúlka, hún var ein,
steig í vitið, stirnd´á fótinn netta.
EHH
Hannes hljóp upp og niður fjall. Ætlaði annað hvort að kanna GSM-samband eða taka myndir.
Hannes sást hátt upp í fjalli.
Við hugsuðum: „Magnaður kraftur,“
og forviða fylgdumst með kalli
sem fór þetta aftur - og aftur.
Hann þaut eftir rimum og rindum
svo reykirnir eftir hann stóðu
og ná vildi náttúrumyndum
á NÓKÍA-stígvélin góðu (?)
(BEB)
Í Álftavatnakróki gengu sumir á fjöll. Þeir sem ekki nenntu fóru með flím.
Bolli og Rakel bröltu á fjall.
Í blænum þaut.
Kanna vildu koll og stall
og kelilaut.
Simmi‘ og Hannes sigu‘ á fjöll,
í sæluríki.
Með framvindunni fylgdumst öll
í ferðakíki.
(BEB)
Bolli tapaði skó í hraðstreymi Hólmsár.
Heljunni heimtum við kappann úr.
Hólmsá át skóinn sem slapp hann úr.
Í lauginni Strúts-
við lágum - án kúts
- vær þar til Valdi reif tappann úr.
(BEB)
Á kvöldvöku í Strútsskála.
Ég kátur til kvöldvöku bjóst.
Í kofanum varð mér það ljóst.
Þá fyrst varð ég svekktur,
forsmáður, blekktur.
Ég fékk ekki‘ að fulhnúa brjóst.
Kotroskinn kom ég í pleisið
og kannaði vandlega hreysið.
undraðist flest
en óttaðist mest
ullarbobbingaleysið.
Í huganum kátur ég kími
og við kitlandi hugsanir glími.
Svo þjakar mig syndinog þankaföst myndin:
Ég þuklaði júgrið á Grími.
Ég hengdi minn koll eins og hafur.
Í huganum birtist krosslafur.
En nú er ég hýr eins og huðna
og hlusta á lestur úr Guðna.
(BEB)
Helga mín fékk medalíu.
Allt er sko alveg í fínu.
Aldeilis hreint - og í línu.
Þó kom það við kaun
að konan fékk laun
fyrir burðinn á brauðinu mínu.
(BEB)
Simmi var óhress með bilaðan franskan rennilás og vissi af hópi Frakka á tjaldstæðinu.
Hafði orð á því að rétt væri að ræða við þá. Mitt minni var að þetta hefði verið Valdi en hann þvertekur fyrir það.
Hún snýst nú samt!
Við skiljum öll væntingar Valdi
og viljum að festingar haldi
því býsnumst við glás
yfir biluðum lás
og biðlum til Frakka í tjaldi.
(BEB)